Íslenski boltinn

Bjarnólfur: Þetta er stökkpallur fyrir framhaldið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarnólfur Lárusson, þjálfara Víkings.
Bjarnólfur Lárusson, þjálfara Víkings. Mynd/Hag
Bjarnólfi Lárussyni þjálfara Víkings var létt eftir að lið hans náði jafntefli við Stjörnuna á heimavelli í kvöld í öðrum leik hans við stjórnvölin og er hann vongóður fyrir framhaldið þó mikil vinna sé eftir.

„Það er æðisleg að ná stigi á þennan hátt og sérstaklega fyrir hönd strákanna sem lögðu þvílíka vinnu í þennan leik. Við spiluðum fyrri hálfleikinn mjög vel varnarlega og skipulega. Við lögðum það upp í leiknum að halda sókndjörfu Stjörnuliði niðri, svo keyrðum við á þá í seinni hálfleik og það gekk vel líka. Mér fannst þeir skora gegn gangi leiksins en við héldum áfram og héldum trúnni og það skilaði okkur stiginu,“ sagði Bjarnólfur eftir leikinn.

Að ná stigi á þennan hátt getur breytt miklu fyrir lið og hjálpað því í framhaldinu. „Þetta er mjög mikilvægt fyrir lið í þessari stöðu. Þetta er stökkpallur fyrir framhaldið. Það er ekkert áunnið en lið í svona stöðu og með það sem hefur gengið á hér í Víkinni frá því í vetur, þá gefur þetta stemningunni byr undir báða vængi og eykur trú leikmanna og það viljum við byggja á til loka tímabils.“

Björgólfur Takefusa kom inná um miðbik seinni hálfleik og var hann mjög ógnandi og tók mikið til sín auk þess að skora jöfnunar markið. Víkingar þurfa sárlega á honum að halda í framhaldinu en hann er grennri en yfirleitt áður. „Hann er frábær markaskorari. Hann er búinn að vera meiddur í sumar og frábært fyrir hann að koma inná og tryggja okkur þetta stig,“ sagði Bjarnólfur um markaskorarann sem var kippt úr viðtali við Vísi vegna fjölmiðlabanns leikmanna.

„Víkingur er í hræðilegri stöðu og það segir sig sjálft að það vantar upp á trú og sjálfstraust leikmanna hjá liði í þessari stöðu. Í fyrri hálfleik, þegar við erum að verjast mikið, náum við ekki að halda boltanum innan liðsins. Í seinni hálfleik keyrum við meira á þá og sköpuðum okkur færi og hefðum getað stolið sigrinum í leiknum,“ sagði Bjarnólfur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×