Íslenski boltinn

Umfjöllun: Atli Viðar tryggði FH sigur

Stefán Árni Pálsson á Kaplakrikavelli skrifar
Ólafur Páll Snorrason og Guðmundur Steinarsson.
Ólafur Páll Snorrason og Guðmundur Steinarsson. Mynd/Anton
FH-ingar unnu ágætan sigur, 1-0, gegn Keflvíkingum í kvöld eftir að hafa verið einum fleiri nánast allan leikinn. Hvorugt liðið náði sér almennilega á strik en Atli Viðar Björnsson gerði eina mark leiksins.

Það má heldur betur segja að leikurinn hafi hafist með miklum látum en FH-ingar fengu algjört dauðafæri eftir aðeins fimm mínútna leik þegar Matthías Vilhjálmsson, fyrirliðið liðsins, skallaði boltann fast beint á mark Keflvíkinga en Ómar Jóhannesson varði vel í markinu.

Aðeins einni mínútu síðar komst Atli Guðnason, leikmaður FH, einn í gegn, Adam Larsson straujaði hann niður og fékk að líta rauða spjaldið. Keflvíkingar því einu færri nánast allan leikinn.

Þetta náðu FH-ingar ekki að nýta sér í fyrri hálfleik og Keflvíkingar sýndu mikla baráttu og vinnusemi. Það mátti alls ekki sjá á leiknum að FH-ingar væru einum  fleiri og staðan því 0-0 í hálfleik.

FH-ingar byrjuðu betur í síðari hálfleiknum og fengu fín færi strax í upphafinu, en náði sem fyrr ekki að nýta sér ákjósanlega stöðu. Leikurinn var virkilega bragðdaufur og liðin náðu hvorugt að finna sitt rétta andlit. Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum náðu heimamenn að koma boltanum í netið þegar Atli Viðar Björnsson smellhitti boltann sem söng í netinu, en Björn Daníel Sverrisson átti fyrirgjöfina.

FH-ingar náði að innbyrða virkilega mikilvægan sigur en Keflvíkingar geta borið höfuðið hátt eftir þennan leik og sýndu mikla baráttu sem á eftir að nýtast þeim það sem eftir er af sumrinu.

FH 1 – 0 Keflavík

1-0 Atli Viðar Björnsson (81.)

Dómari: Erlendur Eiríksson (8)

Skot (á mark): 12 – 4 (7-2)

Varin skot: Gunnleifur 1 – 7 Ómar

Horn: 7 – 1

Aukaspyrnur fengnar: 9– 13

Rangstöður: 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×