Íslenski boltinn

Kristján: Gróf mistök hjá okkur í markinu þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Valsmanna, var sáttur með leik sinna manna í 1-1 jafntefli í Eyjum í dag en vissi manna best að hans menn áttu meira skilið út úr leiknum heldur en bara eitt stig.

„Það var alveg greinilegt að við áttum að vinna þennan leik því við vorum betri. Við misstum einbeitinguna þegar við fengum á okkur markið og svo man ég eftir tveimur opnum færum þar sem við áttum að gera betur. Það skilur á milli en heilt yfir í leiknum þá vorum við miklu betri. ," sagði Kristján eftir leikinn.

„Það helsta sem má setja út á okkar leik eru gæðin í leik okkar á síðasta þriðjungnum. Við ræddum það í hléinu að þar þyrftum við meiri gæði þar. Við erum að spila vel upp völlinn en við þurfum að vera betri á síðasta þriðjungnum," sagði Kristján en framherjar Valsliðsins hafa verið gagnrýndir mikið í sumar.

Haraldur Björnsson, nýr landsliðsmarkvörður Valsmanna, gaf Eyjamönnum mark á 21. mínútu þegar hann reyndi að sóla sóknarmann ÍBV fyrir utan teig.

„Við vorum alveg lamaðir í alveg tíu mínútur eftir að við fengum á okkur þetta mark. Við hefðum auðveldlega getað fengið á okkur annað mark þá. Svo stöppuðum við stálinu í hvorn annan í leikhlénu," sagði Kristján og hann var ánægður með spilamennsku liðsins.

„Frammistaðan var góð og það sem við lögðum upp með fyrir leikinn gengur allt saman mjög vel upp, í bæði vörn sem sókn. Það er vægt til orða tekið að setja að það séu gróf mistök þegar við fengum á okkur markið. Við náum ekki heldur að nýta það þegar það við fáum dauðafæri og það er þetta sem skilur á milli en þetta kemur og er allt saman í vinnslu," sagði Kristján en hann ætlar að bíða eftir úrslitum kvöldsins til að meta stöðuna á Valsliðinu.

„Við skoðum bara hver staðan verður í kvöld og vinnum okkar vinnu í framhaldinu. Frammistaðan var góð í dag og við erum að stríða liðinu sem er í öðru sæti í deildinni. Við vorum mjög góðir.Við sjáum bara til hver staðan verður eftir þessa umferð, tökum þá púlsinn á okkur sjálfum og ræðum það hvað við viljum gera í framhaldinu, hvað við viljum virkilega gera," sagði Kristján en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×