Íslenski boltinn

Heimir: Ég er mjög ósáttur með strákana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var ekki sáttur með sína menn eftir 1-1 jafntefli við Val á Hásteinsvellinum í dag. Valsmenn voru mun sterkari í leiknum og Heimir viðurkennir að sínir menn eigi bara að vera ánægðir með stigið.

„Þetta stig gerir ekkert fyrir okkur og það gerir heldur ekkert fyrir Val. Ég held að við séum sáttari með að hafa fengið stig út úr þessum leik því Valsmenn voru betri meira og minna allan leikinn," sagði Heimir en liðið eru áfram í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

„Þeir virtust vera miklu kraftmeiri. Við nýtum varnarmistök þeirra og þeir nýta varnarmistök okkar. Það voru ekki skoruð fleiri mörk en í rauninni áttu þeir miklu betri færi en við í þessum leik," sagði Heimir en Eyjaliðið var yfir í 56 mínútur í leiknum.

„Þeir voru kraftmeiri og þeir voru betri í þessum leik. Við verðum bara að viðurkenna það að við vorum lélegra liðið þó að það sé sárt hérna á heimavelli. Eftir einn eða tvo daga þá ættum við bara að vera sáttir með þetta stig sem við fengum hérna því við vorum að spila illa í dag," sagði Heimir.

Eyjamenn gátu þó stolið öllum stigunum í lokin en Valsmenn sluppu með skrekkinn.

„Það hefði bara verið þjófnaður að vera búnir að spila illa og ætla síðan að fara spila vel í fimm mínútur og vinna leikinn," sagði Heimir.

„Menn verða gera sér grein fyrir því að þessi leikur er 90 mínútur og það þýðir ekki að slaka á meira og minna allan leikinn. Ég er mjög ósáttur með strákana, eftir fínan leik í Árbænum er fáránlegt að fylgja því eftir með svona skítaleik," sagði Heimir en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×