Íslenski boltinn

Garðar: Þeir áttu ekki möguleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar skoraði þrjú fyrir Stjörnuna í dag.
Garðar skoraði þrjú fyrir Stjörnuna í dag. Mynd/Stefán
Garðar Jóhannsson skoraði þrennu í dag þegar að Stjarnan vann 5-1 sigur á nýliðum Þórsara. Stjörnumenn voru reyndar manni færri í rúman hálfleik.

„Það var engu líkara en að við vorum betri í dag manni færri en þegar það var jafnt í liðum,“ sagði Garðar í léttum dúr. „Þeir héldu sennilega að þetta myndi koma að sjálfu sér en við keyrðum einfaldlega yfir þá í seinni hálfleik. Þeir áttu bara ekki möguleika.“

Garðar segir að Stjörnumenn hafi verið að spila vel að undanförnu en ekki náð að klára sín færi. Það hafi breyst í dag.

„Það væri kannski ágætt að deila þessu aðeins á milli leikja og setja tvö markanna í dag yfir á Víkingsleikinn,“ sagði hann en Stjarnan gerði 1-1 jafntefli við Víking í síðustu umferð.

Jesper Jensen fór meiddur af velli en Garðar segir að leikmannahópurinn sé nægilega góður tili að takast á við slíkan missi ef meiðslin reynist alvarleg.

„Atli (Jóhannsson) er að koma aftur inn eftir meiðsli og svo eru líka fullt af góðum leikmönnum á bekknum sem bíða bara eftir sínu tækifæri. Ég hef ekki áhyggjur af því.“

„Ég vona bara að við höldum áfram að spila eins og við gerðum í dag og þá getum við unnið hvaða lið sem er. Næsti leikur er gegn Fram og stefnum við á þrjú stig í honum. Framhaldið kemur svo í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×