Íslenski boltinn

Sam Tillen: Erfitt að vinna ef þú heldur ekki boltanum

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
Sam Tillen átti skot í slá í fyrri hálfleiknum.
Sam Tillen átti skot í slá í fyrri hálfleiknum.
Sam Tillen var svekktur með frammistöðu Framara í markalausu jafntefli gegn Fylki í kvöld. Sam var ósáttur við hversu illa heimamönnum gekk að halda boltanum innan liðsins.

„Við vorum ágætir í fyrri hálfeik og vorum með í leiknum. Töldum að við myndum á endanum skapa færi til þess að skora mark. Seinni hálfleikur var hins vegar mjög slakur. Steven Lennon fékk reyndar gott færi en annars náðum við ekki að setja neina pressu á þá. Við náðum ekki að halda boltanum af neinu viti. Það er erfitt að vinna leiki ef þú nærð ekki að halda boltanum," sagði Tillen.

Frömurum og reyndar Fylkismönnum líka gekk erfiðlega að senda boltann á samherja hvort sem um stuttar eða langar sendingar var að ræða.

„Staðan sem við erum í gerir þetta að verkum. Ef við værum búnir að vinna 5 leiki í röð væru þessar sendingar ekkert vandamál. En í stöðunni sem við erum í ofhugsum við hlutina. Þá byrja vandamálin. Við hikum og hugsum of mikið um einfalda hluti. Þetta á að vera í okkar innra eðli, og er í okkar innra eðli. Við þurfum að finna það aftur."

Tillen segir að það sé ennþá skemmtilegt að spila knattspyrnu þrátt fyrir slæmt gengi Framara í sumar.

„Já. Völlurinn var frábær og við hlökkum til hvers leiks. Mér fannst við spila betur í síðasta leik (gegn Þór) en við töpuðum honum 3-0. Svo höfum við spilað verr en í dag og náð jafntefli. En þannig er fótboltinn skrýtinn. Í hreinskilni sagt skiptir ekki máli þótt við spilum ömurlega ef við náum í einhver stig. En við þurfum auðvitað að fara að hitta á markið," sagði Tillen en Framarar áttu ekki skot á mark í öllum leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×