Íslenski boltinn

Bjarnólfur: Besti leikur Víkings í sumar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarnólfur Lárusson, þjálfari Víkings.
Bjarnólfur Lárusson, þjálfari Víkings. Mynd/Anton
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings var mjög sáttur við leik síns liðs á KR-vellinum í kvöld þrátt fyrir ósigurinn og kjaftshöggið sem sigurmark úr síðustu spyrnu leiksins er.

„Það er mjög svekkjandi á fá þetta mark á sig og fyrir alla þá vinnu sem leikmenn lögðu í leikinn og þá spilamennsku er mjög svekkjandi að fá ekkert út úr þessu. Það sem við tökum með okkur úr leiknum er frábær spilamennska,“ sagði Bjarnólfur eftir leikinn.

„Ég er ánægður með leikinn í heild sinni. Það gekk mjög margt upp hjá okkur, karakterinn, baráttan og spilamennskan. Hún var til fyrirmyndar í dag. Þetta var besti leikur félagsins í sumar.“

„Við skorum tvö mörk hérna, það eru ekki hvaða lið sem er sem gerir það. Við opnum vörn þeirra trekk í trekk í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn var gríðarlega góður í seinni hálfleik. Við lögðum upp með það. Við fórum rólega inn í leikinn og vörðumst vel í fyrri hálfleik,“ sagði Bjarnólfur.

Víkingur skoraði sjálft úr síðustu spyrnu leiksins gegn Stjörnunni í síðustu umferð og tók þá gleði með sér inn í leikinn í kvöld og Bjarnólfur telur að fá á sig mark í lokin og tapa stiginu muni ekki brjóta menn niður þrátt fyrir erfiða stöðu í deildinni. „Við tökum allt það góða úr þessum leik og við sjáum hversu langt við erum komnir á skömmum tíma, síðan við tökum við liðinu. Við verðum að byggja ofan á þennan leik. Skipulagið er allt allt annað og sóknarleikurinn allt annar. Hugarfar leikmanna og karakter er allt annar, þetta er nýtt lið,“ sagði Bjarnólfur sem virðist vera á réttri leið með Víkinga þrátt tap gegn toppliði deildarinnar í kvöld sem lék einum færri í klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×