Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Við vildum meira

Ari Erlingsson skrifar
Orri Freyr Hjaltalín og Jóhann Helgason.
Orri Freyr Hjaltalín og Jóhann Helgason. Mynd/Vilhelm
Haukur Ingi Guðnason átti ágætis innkomu hjá Grindavíkuliðinu þrátt fyrir að hafa spilað lítin fótbolta undanfarin misseri. „Ég er ánægður með að spila fótbolta við svona frábærar aðstæður. Við vildum samt meira og auðvitað fer maður í alla leiki til þess að ná í 3 stig. Það sást líka í seinni hálfleik því bæði lið vildu sigurinn og þá opnaðist leikurinn meira,“ sagði Haukur Ingi.

„Sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Með smá heppni og öðruvísi ákvörðun frá dómurunum hefðu við getað stolið þessu. Mér fannst ég til að mynda ekki rangstæður í eitt skiptið þegar ég var að sleppa í gegn. Auk þess sem mér fannst ég eiga að fá víti þegar Kári ýtti við mér inn í teig. Ég er þannig leikmaður að ég læt mig ekki detta en auðvitað vilja menn alltaf fá víti þegar maður missir jafnvægið inn í teig.

Ég hef ekki spilað fótbolta í 3 mánuði og var ansi stífur, í raun var ég hræddur um að togna undir lokin. Það er samt fínt að ná einum hálfleik en ég á samt mikið inni. Ég ætla að klára sumarið með Grindavík. Ég þarf að fara í aðgerð og hún verður framkvæmd eftir mótið og ég þjösnast eitthvað aðeins áfram í þessu. Maður finnur auðvitað alltaf verk og ég er nú bara orðinn vanur því,“ sagði Haukur og glotti.

„Grindavík er flottur klúbbur og það vita það allir að góðir menn standa að klúbbnum. Það er frábær umgjörð. Eina sem þarf að gerast er að hala inn fleiri stig og þá á þetta félag að geta stefnt miklu ofar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×