Enski boltinn

Petr Cech hefur áhyggjur af enskum markvörðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Petr Cech þykir einn besti markvörðurinn í boltanum í dag
Petr Cech þykir einn besti markvörðurinn í boltanum í dag Nordic Photos/AFP
Petr Cech markvörður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu segir tímabært að Englendingar velti fyrir sér hvers vegna stór meirihluta markvarða deildarinnar séu erlendir. Hann segir vandamálið að öllum líkindum snúast um þjálfunaraðferðir.

Cech hefur varið mark Chelsea af miklum sóma frá því hann kom til Englands árið 2004.

„Einhver verður að skoða þetta og meta hvort breytinga sé ekki þörf. Í augnablikinu standa aðrar þjóðir framar. Ef allir beita sömu þjálfunaraðferðum verður einhver að finna nýja leið til þess að þjálfa og þróa enska markverði,“ sagði Cech við breska fjölmiðla.

Líklegt er að Joe Hart og Paul Robinson verði einu ensku markverðirnir í deildinni á næsta ári. Ben Foster og Robert Green féllu ásamt liðum sínum í næst efstu deild auk þess sem Scott Carson gekk nýverið til liðs við Bursaspor í Tyrklandi.

Cech segir Englendinga hafa talið sig vera í góðum málum hvað markverði varðaði þegar þessir markverðir voru að stíga sín fyrstu skref.

„Úr þessum hópi þá eru eiginlega bara Hart og Green eftir. Líttu í kringum þig og bentu mér á einhvern annan sem er að spila reglulega í úrvalsdeildinni. Það er enginn,“ sagði Cech.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×