Enski boltinn

Scholes gerir lítið úr fallegum fótbolta Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Scholes í stimpingum við Marouane Chamakh framherja Arsenal
Scholes í stimpingum við Marouane Chamakh framherja Arsenal Nordic Photos/AFP
Paul Scholes sem nýverið lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril með Manchester United segist vonast til þess að Samir Nasri gangi til liðs við félagið frá Arsenal. Hann segir lítinn tilgang í að spila fallegan fótbolta ef það skilar engum árangri.

Franski landsliðsmaðurinn Samir Nasri er orðaður við brotthvarf frá Arsenal. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum og útlit fyrir að Arsenal vilji selja hann á meðan þeir geta fengið eitthvað fyrir hann. Manchester United er eitt þeirra liða sem Nasri er orðaður við.

Paul Scholes segist vona að Nasri gangi til liðs við United. Hann gerir um leið lítið úr spilamennsku Arsenal sem hann segir ekki skila árangri.

„Kannski spila þeir fallegasta fótboltann en það skilar sér ekki alltaf í úrslitunum sem liðið þarf á að halda. Það fer ekki í taugarnar á mér þegar fólk segir þá besta fótboltaliðið því á sama tíma erum við að vinna leiki,“ segir Scholes.

„Stundum spila þeir skemmtilegasta boltann en hver er tilgangurinn ef það skilar engum árangri? Ekki nóg með það heldur eru líkur á því að þeir missi sína bestu leikmenn, þá Fabregas, Nasri og Clichy,“ bætti Scholes við.

Hann bætir því við að Manchester United undir stjórn Alex Ferguson myndi aldrei fara í gegnum sex ára tímabil án þess að vinna titil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×