Innlent

Vanræktu að skrá bréf um kynferðisbrot

Bréf Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur um kynferðisbrot föður hennar var ekki skráð í skjalaskrá Biskupsstofu Íslands fyrir en einu og hálfu eftir að hún sendi bréfið. Karl Sigurbjörnsson biskup sagði við rannsóknarnefnd Kirkjuþings að í bréfinu væru alvarlegar ásakanir gagnvart látnum manni.

Guðrún Ebba, sem er dóttir Ólafs Skúlasonar, sendi biskupi og biskupsstofu bréfið þar sem hún óskaði eftir að fá tækifæri til þess að segja biskupi og kirkjuráði sögu sína.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar kirkjuþings, lýsir Ragnhildur Bragadóttir skjalavörður því þegar bréfið barst í hús. Henni var mjög brugðið þegar hún opnaði bréfið og sá innihald þess. Hún fór því rakleitt á skrifstofu Biskups sem sat á fundi með presti og sagðist mundu skrá bréfið þegar hann bæði þess. Ekkert varð af skráningunni og var Ragnhildi tjáð að valdið væri hjá biskupi.

Einu og hálfu ári síðar, þegar mál Guðrúnar Ebbu hafði komist í fjölmiðla, krafðist Ragnhildur þess að fá að skrá bréfin. Þá lágu þau í efstu skúffu ritara og höfðu verið fjölfölduð.

Karl bar fyrir rannsóknarnefnd að það hefði ekki verið meðvituð ákvörðun að láta hjá líða að skrá bréfið um leið og það barst en það hafi verið talið innihalda mjög alvarlegar ásakanir á hendur látnum manni sem gæti hafa gert það að verkum að beðið var með skráninguna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×