Enski boltinn

Owen vill vera áfram hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michael Owen, leikmaður Manchester United, hefur áhuga á að vera áfram hjá félaginu en núverandi samningur hans rennur út í sumar.

Owen spilaði nægilega mikið með United í vetur til að fá verðlaunapening um hálsinn en liðið varð sem kunnugt er Englandsmeistari í nítjánda sinn frá upphafi í vor. Alls kom Owen við sögu í ellefu deildarleikjum, þar af aðeins einu sinni sem byrjunarliðsmaður.

„Ég naut hverrar einustu mínútu,“ sagði Owen. „Við erum með frábæra leikmenn, frábært starfslið, knattspyrnustjóra og stuðningsmenn. Vonandi fæ ég tækifæri til að vera hér áfram.“

Leikmenn United fóru í morgun í rútuferð um Manchester-borg til að fagna meistaratitlinum. United tapaði þó fyrir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu um helgina.

„Aðalmarkmiðið í upphafi hvers tímabils er að vinna deildina,“ sagði Owen. „Það sem gerðist um helgina á ekki að draga úr þeirri gleði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×