Enski boltinn

Paul Scholes hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Scholes á æfingu með United.
Paul Scholes á æfingu með United. Nordic Photos / Getty Images
Paul Scholes, leikmaður Manchester United til fjölda ára, hefur ákveðið að hætta knattspyrnuiðkun 36 ára gamall.

Scholes er 36 ára gamall og hefur verið hjá United allan sinn feril. Hann lék á þeim tíma 676 leiki með félaginu, þann síðasta gegn Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um helgina.

Hann mun þó halda áfram að starfa hjá félaginu en gengur nú í þjálfarateymi þess. Scholes er þriðji leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester United og vann tíu meistaratitla með félaginu, þann síðasta nú í vor.

„Það var ekki auðvelt að taka þessa ákvörðun en mér finnst tímabært að ég hætti að spila nú,“ sagði Scholes í samtali við enska fjölmiðla. „Ég er ekki maður margra orða en ég get í sannleika sagt að það eina sem ég vildi nokkru sinni fá að gera var að spila knattspyurnu. Það hefur verið mér sannur heiður að fá að spila með Manchester United.“

„Það eru mikil forréttindi að hafa verið hluti af því liði sem vann nítjánda meistaratitil félagsins.“

Paul Scholes hefur verið hampað í gegnum tíðina sem einn allra færasta knattspyrnumanni ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi og Alex Ferguson sagði hann einfaldlega „ótrúlegan leikmann“.

„Paul hefur alltaf verið leikmönnum á öllum aldri mikill innblástur og við vitum að hann mun nú halda því áfram í sínu nýja hlutverki,“ sagði Ferguson.

David Gill, framkvæmdarstjóri United, dró ekki úr lofinu. „Hann hefur sýnt og sannað að hann er einn besti leikmaðurinn sem nokkru sinni hefur klæðst treyju Manchester United.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×