Enski boltinn

Ancelotti var rekinn í ganginum á Goodison Park

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, fyrrum stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, fyrrum stjóri Chelsea. Mynd/AP
Chelsea-menn voru ekkert að bíða með það að reka Carlo Ancelotti eftir tapleikinn á móti Everton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Mörgum finnst framkoma Chelsea gagnvart stjóra sínum vera afar harðbrjósta þó svo að enginn titill hafi komið í hús á þessu tímabili.

Ancelotti fékk aðeins að klára blaðamannafundinn eftir leikinn en strax eftir hann kom Ron Gourlay, stjórnarformaður Chelsea til hans á ganginum á Goodison Park og tilkynnti Ítalanum að hann yrði rekinn. Þetta gerðist því aðeins klukkutíma eftir að leiknum lauk og löngu áður en liðið flaug aftur heim til London.

Þetta minnti mikið á það þegar forráðamenn West Ham ráku Avram Grant í göngunum eftir tap á móti Wigan Athletic um síðustu helgi en með því féll West Ham liðið úr ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea vann tvöfalt á fyrsta tímabili sínu undir stjórn Carlo Ancelotti en það hefur margt gengið á afturfótunum á þessu tímabili. Ancelotti sjálfur segist hafa búist við því að verða rekinn eftir tapið fyrir Manchester Unitec á Old Trafford 8. maí síðastliðinn. Hann fær væntanlega 6 milljónir punda í starfslokasamning sem eru svo sem ágætis sárabót.

Roman Abramovich, rússneski eigandi Chelsea, var ekki staddur á Goodison Park í gær en hann er nú að hefja leit sína að sjöunda stjóranum á átta árum. Guus Hiddink er víst hans fyrsti kostur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×