Enski boltinn

Arsenal vill fá tíu milljónir evra fyrir Bendtner

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner.
Nicklas Bendtner. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nicklas Bendtner mun fá leyfi til að yfirgefa Arsenal í sumar fái félagið tíu milljónir evra fyrir danska landsliðsframherjann. Bendtner hefur sagt Arsene Wenger, stjóra Arsenal, að hann vilji komast í burtu frá félaginu.

Hinn 23 ára gamli Bendtner fékk ekki mörg tækifæri á þessu tímabili og byrjaði aðeins í þremur leikjum í úrvalsdeildinni. Hann var líka mikið notaður á kantinum í stað þess að spila upp á toppi. Bendtner skoraði 9 mörk í 28 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni.

Bendtner kom til Arsenal árið 2004 en hefur verið á eftir Robin van Persie og Marouane Chamakh í goggunarröðinni. Hann hefur skorað 33 mörk í 132 leikjum í ensku úrvalsdeildinni þar af 11 mörk í 42 leikjum í láni hjá Birmingham City 2006–07.

„Nicklas hefur tekið ákvörðun og hefur sagt Arsenal að hann vilji fara. Staða hans hefur ekki breyst, við viljum skoða markaðinn og reyna að finna fyrir hann nýtt félag. Ég get sagt strax að það er mikill áhugi frá bæði enskum og þýskum liðum og það á ekki að verða erfitt að finna handa honum gott lið," sagði Thomas Bendtner, umboðsmaður og faðir Nicklas Bendtner.

Bendtner hefur jafnframt lýst því yfir að hann muni ekki gefa kost á sér í 21 árs landsliðs Dana sem er að fara að keppa á EM á heimavelli í næsta mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×