Íslenski boltinn

Umfjöllun: Bikarhefnd Grindvíkinga á KA

Hjalti Þór Hreinsson í Boganum á Akureyri skrifar
Mynd/Anton
Grindavík er komið í 16-liða úrslit Valitor-bikarsins eftir 1-2 sigur á KA í Boganum á Akureyri í kvöld. Sanngjörn úrslit í skemmtilegum leik.

Grindvíkingar töpuðu fyrir KA í 16-liða úrslitunum í fyrra, eftir vítaspyrnukeppni á heimavelli.

Grindvíkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik. Þeir náðu fljótlega undirtökum á miðjunni og fengu strax tvær hornspyrnur.

Michal Poposil fékk dauðafæri snemma leik en Sandor Matus varði vel. Poposil skoraði þó skömmu síðar þegar hann komst einn í gegn. Hann var pollrólegur og kláraði færið sitt af mikilli yfirvegun. Vel gert hjá framherjanum.

Orri Freyr Hjaltalín er svo á leiðinni á YouTube fyrir klúðrið skömmu síðar. Sending kom fyrir, framhjá Sandor og Orri stóð aleinn í markteignum. Hann hefði getað stoppað boltann, lagst niður og skallað hann inn, en Orri hitti ekki boltann.

Grindvíkingar voru mun betri lengst af en KA skapaði nokkrar hættur. Vörn Grindvíkinga var ekki alltaf traust en heimamenn fengu þó ekkert dauðafæri.

Það fengu Grindvíkingar aftur á móti og áður en hálfleikurinn var liðinn hafði Jóhann Helgason skotið yfir úr einu slíku.

Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir Grindavík.

KA sótti í sig veðrið í seinni hálfleik sem var jafn fyrsta korterið. Þeir fengu ágætt færi en Grindvíkingar spiluðu þó betur og sköpuðu miklu meira.

Þegar Grindavík skoraði aftur kom upp keimlík staða og í fyrri hálfleik. Poposil klúðraði færi einn gegn Sandor en fékk svo annað færi síðar og skoraði þá. Magnús Björgvinsson vann þá boltann af varnarmanni KA, sendi fyrir og Poposil átti ekki í vandræðum með að ýta boltanum yfir línuna.

Allt stefndi í öruggan sigur Grindvíkinga þegar liðið gerði slæm mistök. Guðmundur Andri reyndi að skalla boltann til baka, varnarmenn Grindvíkinga hikuðu og Hallgrímur komst í boltann. Hann lagði hann fyrir sig og setti hann snyrtilega í þaknetið. Korter eftir og staðan skyndilega orðin 1-2.

KA-menn hresstust mikið við markið en skömmu áður var Poposil tekinn af velli. Grindvíkingar geta sjálfum sér um kennt að hafa gert leikinn spennandi en þeir hefðu átt að gera út um leikinn fyrir löngu áður en KA skoraði.

Leiknum lauk þó með 1-2 sigri Grindvíkinga. KA gerði hvað það gat en komst ekki í nein dauðafæri. Það tók of seint við sér og því fór sem fór. Liðið barðist vel og hatrammlega en allt kom fyrir ekki.

Heilt yfir var sigurinn sanngjarn. Poposil var góður hjá Grindavík, Jóhann líka en vörnin var óstyrk. Hjá KA var Boris Lumbana fínn sem og Hallgrímur Mar en annars sköruðu fáir fram úr.

Hér fyrir neðan birtust sjálfkrafa allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins, leikmannahópa liðanna auk textalýsingar frá blaðamanni Vísis á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×