Enski boltinn

Galliani: Fábregas er of dýr fyrir AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fábregas.
Cesc Fábregas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Adriano Galliani, varaforseti AC Milan hefur lokað á þann möguleika að félagið kaupi Cesc Fábregas frá Arsenal fyrir næsta tímabil. Fábregas hefur verið orðaður við ítölsku meistarana að undanförnu en Galliani sagði í viðtali við Gazzetta dello Sport að AC Milan hefði ekki efni á fyrirliða Arsenal.

AC Milan er að leita sér að miðjumanni sem getur fyllt skarð Andrea Pirlo sem er farinn til Juventus auk þess að það er mikil óvissa í kringum framtíð Gennaro Gattuso hjá ítalska félaginu.

„AC Milan mun kaupa leikmann vinstra megin á miðjuna áður en félagskiptaglugganum lokar 31. ágúst. Hamsik og Fábregas geta báðir spilað þessa stöðu. Við höfum aldrei beðið um Hamsik en hann er enn möguleiki. Fábregas er hinsvegar of dýr," sagði Adriano Galliani en verðmiðinn á hinum 24 ára Fábregas er talinn vera um 60 milljónir punda.

Marek Hamsik hefur spilað mjög vel liði Napoli en hann er 23 ára slóvakískur landsliðsmaður sem var með 11 mörk og 8 stoðsendingar í ítölsku deildinni á þessu tímabili.

Fábregas er með samning við Arsenal til ársins 2014 en það hafa verið stanslausar sögusagnir um hann síðustu ár þar sem flestar hafa snúist um það að Fábregas sé á leiðinni aftur heim til Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×