Enski boltinn

Toure fékk sex mánaða bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolo Toure er hér fyrir miðri mynd.
Kolo Toure er hér fyrir miðri mynd. Nordic Photos / Getty Images
Kolo Toure, leikmaður Manchester City, var í dag dæmdur í sex mánaða bann fyrir að falla á lyfjaprófi.

Toure missir því af upphafi næsta tímabils en Toure má byrja að spila aftur í byrjun september þar sem að bannið gildir frá 2. mars, er hann var fyrst settur í tímabundið bann.

„Þetta hefur verið erfiður tími og mér finnst leitt að hafa misst af því þegar liðið tryggði sér sigur í enska bikarnum og keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Toure við enska fjölmiðla í dag.

„Ég er þó feginn að ég megi byrja aftur í september og þakka enska knattspyrnusambandinu fyrir að sýna máli mínu skilning.“

Heimilt var að dæma Toure í tveggja ára bann en Toure játaði sök í málinu auk þess sem þetta var hans fyrsta brot. Toure tók inn megrunarlyf sem eiginkona hans átti og gerði sér ekki grein fyrir að það innihélt efni sem var á bannlista.

Arsene Wenger, fyrrum stjóri Toure er hann var á mála hjá Arsenal, steig fram á sínum tíma og sagði að Toure hefði tekið lyfið til að hafa betri stjórn á eigin líkamsþyngd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×