Enski boltinn

Þolandi karatesparks Cantona réðst á þjálfara sonar síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona.
Eric Cantona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Matthew Simmons, stuðningsmaður Crystal Palace, varð heimsfrægur á einni nóttu í janúar 1995, þegar hann reitti Frakkann Eric Cantona svo til reiði að Cantona réðst að honum með karatesparki.

Cantona hafði þarna verið rekinn útaf með rautt spjald og var á leiðinni út af vellinum þegar hann missti stjórn á sér við eitthvað sem Simmons sagði. Cantona var í framhaldinu dæmdur í átta mánaða keppnisbann og þurfti hann einnig að sinna 120 klukkutímum af samfélagsþjónustu.

Matthew Simmons, var þá aðeins tvítugur en hann er 36 ára gamall í dag og er enn að lenda í vandræðum.

Simmons var nefnilega á dögunum dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á Stuart Cooper, sem er þjálfari fótboltaliðs sonar hans. Simmons þarf einnig að greiða 1000 pund í skaðabætur og 2000 pund í málskostnað.

Simmons hélt því fram að Cooper hefði tekið strákinn hans út úr liðinu vegna atviksins fræga með Cantona. Cooper fékk blóðnasir og nokkra marbletti eftir árásina sem varð í ágúst síðasliðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×