Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá Val: Valur hefur í engu brotið reglur KSÍ

Freyr Alexandersson fagnar bikarmeistaratitli með kvennaliði Vals í fyrrahaust.
Freyr Alexandersson fagnar bikarmeistaratitli með kvennaliði Vals í fyrrahaust. Mynd/Daníel
Knattspyrnudeild Vals hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunnar fjölmiðla um formlega kvörtun KR-inga til KSÍ vegna afskipta þjálfara Vals af Ingólfi Sigurðssyni, Ingólfur er samningsbundinn KR en Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, sagði við Fréttablaðið að Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari Vals, hafi skipt sér fullmikið af máli Ingólfs sem vill losna frá KR.

Valsmenn segja vera alsaklausir af ásökunum KR-inga og segja að þeir hafi virt allar reglur KSÍ um félagsskipti. Yfirlýsingu Valsmanna má finna hér fyrir neðan.

Yfirlýsing frá knattspyrnudeild Vals:Knattspyrnudeild Vals hafnar alfarið kvörtun knattspyrnudeildar KR um að hafa brotið 14.13 gr. reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Hvorki Freyr Alexandersson né neinn annar á vegum deildarinnar hafði samband við samningsbundinn leikmann KR, Ingólf Sigurðsson.

 

Mál Ingólfs og knd. KR er innanhússvandi þess annars ágæta félags. Kvörtunin virðist þannig  hönnuð til þess að dreifa athyglinni frá málinu og væri hlutaðeigandi nær að líta í eigin barm.

 

Stjórn knd. Vals vill einnig taka fram að það hryggir hana að stjórn knd. KR hafi valið að leggja fram kvörtun til KSÍ nokkrum klukkustundum fyrir aldarafmæli Vals. Stjórn knd. KR hefur þannig valið að varpa skugga á ágætt samstarf félaganna í gegnum árin. Það er ekkert í þessu máli sem ekki mátti bíða í rúman sólarhring. Samskiptafærni og virðing fyrir öðrum er auðlærð, ef vilji er fyrir hendi.

 

Knattspyrnudeild Vals vísar því kvörtun KR til föðurhúsanna. Valur hefur í engu brotið reglur KSÍ.

 

fh. stjórnar

Friðjón R. Friðjónsson

Formaður knattspyrnudeildar Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×