Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson: Vorum mun betri

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson þjálfari KR var að vonum hæst ánægður með stigin þrjú sem KR sótti í Víkina. „Frábær stig að sækja hingað á Víkingsvöll. Það er erfitt að koma hingað og mæta vel skipulögðu Víkingsliði. Við þurftum eins og alltaf að gefa okkur alla í leikinn. Við sækjum ekki þrjú stig í neinum leik í Íslandsmótinu án þess að hafa fyrir því. Ég er mjög ánægður með að sækja þrjú stig hingað og halda hreinu,“ sagði Rúnar.

Það tók KR-inga hálftíma að ná tökum á miðjunni og þar með leiknum. „Þetta var stöðubaráttu en þegar leið á hálfleikinn þá fundum við leiðir til að brjóta þá á bak aftur. Svo skorum við gullfallegt mark með langskoti og það opnar leikinn fyrir okkur. Eftir það fannst mér við vera mun betri en samt er alltaf hætta á ferðum.

Víkingar eru hraðir fram og með Helga Sigurðsson sem maður getur aldrei litið af. Maður er aldrei rólegur,“ sagði Rúnar sem gat þó verið þokkalega slakur síðustu mínútur leiksins þar sem KR-ingar voru alltaf líklegri til að bæta við þriðja markinu en Víkingur að minnka muninn.

„Þeir eiga skalla eftir hornspyrnu rétt yfir í seinni hálfleik, ég man ekki eftir öðrum færum frá þeim. Við lokum svæðum mjög vel og hleyptum þeim ekki í gegnum vörnina. Ég er mjög ánægður með varnarleikinn sem heild,“ sagði Rúnar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×