Íslenski boltinn

Willum Þór: Ánægður með dugnaðinn og baráttuandann í liðinu

Ari Erlingsson í Keflavík skrifar
Willum Þór.
Willum Þór.
Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur var ánægður með lið sitt sem náði að stela einu stigi í blálokin á leik þeirra gegn FH. Baráttuandi og þrautseigja liðsins skilaði sér þegar á þurfti að halda.

„Ég er auðvitað sáttur með það að ná stiginu í lokin. Ég er ánægður með dugnaðinn og baráttuandann sem liðið sýndi. Við spiluðum góðan fyrri hálfleik. Sýndum styrk með því að halda FH-ingum í skefjum fyrstu 45 mínúturnar. Mér fannst við eiga möguleika á því að skapa eitthvað í fyrri hálfleik en í nokkur skipti var það síðasta sending sem klikkaði. Í seinni hálfleik ætluðum við að fylgja þessu enn betur eftir en því miður náðu FH-ingar undirtökum á miðjunni.

Þeir voru klókir og bjuggu sér til pláss og þar af leiðandi féllum við aðeins aftur á völlinn að auki voru þeir fljótir að setja okkur undir pressu þannig að við náðum lítið að halda boltanum.  Við stóðumst áhlaup þeirra þar til að Matti jafnar úr aukaspyrnu þar sem við vorum illa staðsettir og ekki einbeittir. Í lokin hefðum við svo auðvitað vel getað stolið þessu. Skoruðum tvö mörk, en bara annað dæmt löglegt. Ég var því gríðarlega ánægður með liðið á lokamínútunum. Liðið barðist til lokaflauts og við sýndum frábæran baráttuanda," sagði Willum.

Næsti leikur er gegn Grindavík og það veður alvöru nágrannaslagur þar sem ekkert verður gefið eftir. Þetta er búið að vera þungt og erfitt leikjaplan í vor og við njótum þess bara til hins ítrasta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×