Enski boltinn

Leeds og Southampton eltast við Guðlaug Victor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. Mynd/Daníel
Stuðningsmannasíðan skoska liðsins Hibernian segir frá umfjöllun breskra fjölmiðla um áhuga ensku b-deildarliðanna Leeds og Southampton á íslenska 21 árs landsliðsmanninum Guðlaugi Victor Pálssyni.

Guðlaugur Victor kom til Hibernian á frjálsri sölu frá Liverpool í janúar og stóð sig vel með liðinu í skosku úrvalsdeildinni. Hann á enn eftir tólf mánuði af 18 mánaða samningi sínum við Edinborgarliðið.

Guðlaugur Victor skoraði 1 mark í 16 leikjum með Hibs en liðið endaði í 10. sæti en félagið var lengi í harðri fallbaráttu í deildinni.

Leeds-liðið var lengi í toppbaráttunni í ensku b-deildinni í vetur en gaf eftir á lokasprettinum og Southampton verða nýliðar í ensku b-deildinni næsta vetur. Bæði félögin eiga að baki mörg ár í efstu deild.

Nigel Adkins, stjóri Southampton, og Simon Grayson, stjóri Leeds United, eru báðir sagðir vera spenntir að fá þennan fyrrum Fylkismann til sín til að styrkja lið sitt fyrir baráttuna um að koma þessum fornfrægu félögum aftur í hóp þeirra bestu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×