Enski boltinn

United-menn búnir að taka niður City-borðann á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Stuðningmenn Manchester United hafa lengi strítt nágrönnum sínum í Manchester City á titlaleysinu og frægasta dæmið um þá stríðni var borði sem hékk uppi á Old Trafford og á stóð hversu lengi City-menn voru búnir að bíða eftir titli.

Talan var komin upp í 35 ár þegar Manchester City tryggði sér enska bikarinn um síðustu helgi með 1-0 sigri á Stoke í bikarúrslitaleiknum en City-menn voru þá að vinna sinn fyrsta titil síðan að þeir urðu deildarbikarmeistarar árið 1976.

United-liðið vann 13 meistaratitla, 8 bikarmeistaratitla, fjóra deildarbikarmeistaratitla og þrjá Evrópumeistaratitla frá því að City lyfti deildarbikarnum 1976 þar til að Carlos Tevez tók við bikarnum á laugardaginn.

Einhverjir stuðningsmenn United vildu samt halda borðanum og telja nú hversu lengi City væri búið að bíða eftir enska meistaratitlinum. City vann síðast enska meistaratitilinn árið 1968 eða fyrir 43 árum. Það varð þó ekkert úr því.

Stuðningsmenn United voru samt sem áður í stríðnisham og laumuðust því með annan borða inn á Anfield, heimavöll Liverpool, á sunnudaginn þar sem á stóð "19-18 fyrir United" en þar var vísað til þess að United er eftir meistaratitilinn í ár orðið sigursælasta félag enskrar knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×