Enski boltinn

Man. City tók 3. sætið af Arsenal með öruggum heimasigri á Stoke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez fagnar fyrra marki sínu.
Carlos Tevez fagnar fyrra marki sínu. Mynd/AP
Manchester City fylgdi eftir bikarmeistaratitli helgarinnar með því að vinna öruggan 3-0 sigur á Stoke í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en með þessum sigri tók City-liðið þriðja sætið af Arsenal. Fjögur efstu sætin skila sæti í Meistaradeildinni en aðeins þrjú efstu liðin sleppa við að fara í forkeppnina.

Carlos Tevez fór á kostum og skoraði tvö frábær mörk í leiknum og er nú jafn Dimitar Berbatov í baráttunni um gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Carlos Tevez kom Manchester City í 1-0 á 14. mínútu með frábæru marki. Tevez komst þá inn í teiginn eftir veggspil við James Milner, plataði varnarmenn Stoke með tveimur léttum gabbhreyfingum og sendi boltann síðan óverjandi upp í bláhornið.

Það voru ekki liðnar nema átta mínútur af seinni hálfleiknum þegar Joleon Lescott kom City í 2-0 með skalla eftir aukaspyrnu frá Adam Johnson. Thomas Sorensen, markvörður Stoke, greip í tómt og Lescott skallaði boltann í tómt markið.

Carlos Tevez var ekki hættur að skora glæsileg mörk í leiknum því á 65. mínútu skoraði hann með stórkostlegu skoti beint úr aukaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×