Enski boltinn

Ancelotti: Úrslitin ráðast ekki á liðsskipaninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, neitar því að hann væri að taka áhættu með því að stilla þeim Fernando Torres og Didier Drogba saman upp í fremstu víglínu í leiknum gegn Manchester United á sunnudaginn.

Torres var keyptur til Chelsea í janúar síðastliðnum en sparkspekingum í Englandi finnst að honum hafi gengið illa að spila með Drogba.

„Þetta væri ekki áhættusamt - Torres er frábær framherji,“ sagði Ancelotti við enska fjölmiðla í dag. „Ég vil þó segja eitt. Liðsskipanin mun ekki ráða úrslitum í þessum leik.“

„Það sem mestu máli skiptir er hugrekki leikmanna, persónuleiki þeirra og karakter. Og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.“

Hann hefur ekki áhyggjur af því að leikmenn fari í fýlu ef þeir fá ekki sæti í byrjunarliðinu. „Ég vil að mínir leikmenn skilji að það skiptir ekki öllu máli að vera í byrjunarliðinu. Það skiptir meira máli að þeir geti haft áhrif, þó svo að þeir spili í aðeins 20 mínútur.“

„Leikmenn sem hafa komið inn á af bekknum geta haft mikið að segja. Við höfum unnið leiki vegna slíkra leikmanna og það var tilfellið í apríl þegar að Drogba kom inn á og vann leiki fyrir okkur.“

„Það þarf meira til en bara ellefu leikmenn til að vinna leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×