Enski boltinn

Balotelli veldur usla meðal starfsfólks City

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mario Balotelli er litríkur í meira lagi.
Mario Balotelli er litríkur í meira lagi. Nordic Photos/Getty Images
Knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli hefur verið að gera allt vitlaust hjá starfsfólki Manchester City en hann á víst í vandræðum með að borga í stöðumæla í Manchesterborg.

Balotelli, sem hefur verið mikið í sviðsljósinu vegna hegðun sinnar á þessari leiktíð, ekur um á Maserati glæsibifreið og hefur rakað inn stöðumælasektum upp á tíu þúsund pund í vetur eða alls um 1,85 milljónir króna. Að meðaltali hefur hann fengið þrjár stöðumælasektir á dag.

Starfsmenn City eru orðnir langþreyttir á framgöngu Balotelli en þeir hafa þurft að sækja bíl leikmannsins alls 27 sinnum eftir að bíllinn hefur verið dreginn í burtu af yfirvöldum.

„Starfsmaður klúbbsins tæmir fullt hanskahólf af sektum í hvert skipti sem bíllinn er þrifinn. Mario er alveg sama, þetta er dropi í hafið fyrir hann,“ segir heimildarmaður The Sun sem greinir frá málinu í dag.

Balotelli var keyptur til City fyrir 24 milljónir punda síðasta sumar og hefur verið mikið í fréttunum fyrir ærslafulla hegðun, innan sem utan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×