Enski boltinn

Torres: Sýndi Liverpool tryggð með því að fara ekki til City eða United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fernando Torres segist hafa sýnt Liverpool hollustu og tryggð með því að fara frekar til Chelsea í staðinn að fara til annaðhvort Manchester City eða Manchester United. Margir stuðningsmenn Liverpool voru mjög ósáttir með það þegar spænski framherjinn óskaði eftir því að fara frá félaginu.

„Ég vildi ekki fara til Manchester City eða Manchester United því það gæti ég aldrei gert vegna hollustu minnar til Liverpool," sagði Fernando Torres í viðtali við The Mirror.

„Liverpool var ekki sama félag þegar ég fór og það var þegar ég kom. Ég áttaði mig ekki á hvaða leið félagið var," sagði Torres um ástæður þess að hann fór og bætti síðan við:

„Það var ekki eins og ég væri sá fyrsti til að fara á síðustu árum. [Xabi] Alonso, [Javier] Mascherano, [Alvaro] Arbeloa, [Albert] Riera, [og stjórinn Rafael] Benitez fóru allir. Alls voru 20 eða 30 búnir að yfirgefa félagið til að reyna að bæta sinn leik," sagði Torres.

„Ég gat ekki ímyndað mér að yfirgefa Liverpool en þegar Chelsea-lestin kom þá varð ég að stökkva því ég hef alltaf dreymt um að vinna titla. Ég vil vinna ensku úrvalsdeildina og fannst ég þurfa að fara til þess," sagði Torres.

Fernando Torres hefur ekki enn náð að skora fyrir Chelsea síðan að félagið keypti hann á 50 milljónir punda frá Liverpool. Hann hefur nú leikið fimm leiki og í 407mínútur í Chelsea-búningnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×