Enski boltinn

Nani er ennþá mjög sár út í Carragher

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani.
Nani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nani, leikmaður Manchester United, segist ekki enn hafa fyrirgefið Liverpool-manninum Jamie Carragher fyrir tæklinguna á dögunum. Nani var borinn af velli en spilaði síðan á ný með United í Meistaradeildinni í gær.

„Ég veit ekki hvað Carragher var að hugsa en það átti ekkert skylt við fótbolta. Hann kom til mín eftir leikinn og baðst afsökunar en ég var ekki sáttur," sagði Nani.

„Þetta er í annað skiptið sem hann meiðir mig. Í fyrra skiptið var ég frá í tvo mánuði af hans sökum," segir Nani.

„Ég vil ekki frá neina sérstaka vernd. Það eina sem ég óska mér er að dómararnir séu sanngjarnir. Þeir verða að gefa rauða spjaldið þegar það er rautt spjald. Fari rauða spjaldið á loft þá sleppa menn kannski svona tæklingu næst," sagði Nani.

„Þegar ég sá fótinn í fyrsta sinn þá hélt ég að tímabilið væri búið hjá mér. Þess vegna fór ég að gráta," sagði Nani aðspurður um tárin sem féllu eftir tæklinguna hjá Jamie Carragher.

„Þegar læknirinn hafði skoðað þetta betur þá sagði hann mér að ég hafi verið heppinn því það þurfti bara að sauma nokkur spor. Hann var samt hissa á því hversu stuttan tíma það tók fyrir mig að ná mér," sagði Nani.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×