Enski boltinn

Kenny Dalglish: Þetta snýst ekki allt bara um Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, segir að sýnir menn geti ekki leyft sér að leggja alla áherslu á það að stoppa Wayne Rooney í stórleiknum á móti Manchester United á morgun. Rooney hefur fundið skotskóna sína í síðustu leikjum og hefur skorað fimm mörk í síðustu fimm deildarleikjum sínum.

„Ég tel að Wayne Rooney þurfi ekkert að sanna fótboltahæfileika sína fyrir neinum. Allir sem þekkja til í fótboltanum vita að þar er á ferðinni heimsklassaleikmaður," sagði Kenny Dalglish.

„Hann hefur hæfileikana til að gera allt sem fólk er að tala um en við skulum vona að hann geri það þó ekki á sunnudaginn," sagði Dalglish.

„Það er erfitt að halda svona leikmönnum niðri en það er ekki erfitt að setja upp gott skipulag. Það er okkar starf að reyna að loka á hann og hina í liðinu en hvort það takist hjá okkur verður bara að koma í ljós," sagði Dalglish.

„Þetta snýst samt ekki allt bara um Rooney og það er ekki Wayne Rooney sem við þurfum að hafa áhyggjur af heldur lið Manchester United. Þeir eru með frábært lið og eru á toppnum eins og er," sagði Dalglish en Liverpool tapaði 0-1 í bikarnum á móti United í fyrsta leiknum eftir að hann tók við Liverpool á nýjan leik eftir tuttugu ára fjarveru.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×