Enski boltinn

Lið Kára á leið í greiðslustöðvun - missa tíu stig og fara á botninn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Plymouth, lið Kára Árnasonar, steig stórt skref í átt að greiðslustöðvun með því að tilkynna um ráðningu skiptastjóra í dag en hann á að aðstoða félagið við að forðast gjaldþrot.  Plymouth mun í kjölfarið missa tíu stig vegna þessa og fer með því á botninn í ensku C-deildinni.

Plymouth er búið að glíma við mikil fjárhagsvandræði undanfarna mánuði og leikmenn og þjálfarar hafa ítrekað ekki fengið borguð laun á réttum tíma. Forráðamenn félagsins segja að félagið sé ekki enn komið í greiðslustöðvun og að þeir vonist til þess að skiptastjóri hjálpi þeim að finna lausn á fjárhagsvandræðum félagsins.

Kári hefur spilað með Plymouth undanfarin tvö tímabil en félagið féll út úr ensku B-deildinni síðasta vor og verður í mjög slæmri stöðu á botni C-deildarinnar missi félagið fyrrnefnd stig.

Plymouth er nú með 33 stig í 19. sæti í ensku C-deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Dagenham & Redbridge er í neðsta sætinu en verður með fimm stigum meira en Plymouth missi félagið þessi tíu stig.

Kári er fastamaður í liði Plymouth. Hann hefur spilað 28 af 31 deildarleik liðsins á þessu tímabili þar sem hann hefur skorað eitt mark, gefið tvær stoðsendingar, fengið sjö gul og tvö rauð spjöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×