Enski boltinn

Fjórði sigur Tottenham í röð - Kyle Walker tryggði sigurinn á Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Walker fagnar sigurmarki sínu með Gareth Bale, Emmanuel Adebayor og Luca Modric.
Kyle Walker fagnar sigurmarki sínu með Gareth Bale, Emmanuel Adebayor og Luca Modric. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham fagnaði sínum fjórða sigri í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið vann 2-1 sigur á nágrönnunum í Arsenal á White Hart Lane. Tottenham hoppaði upp í sjötta sæti deildarinnar með þessum sigri en Arsenal hefur aðeins unnið 2 af 7 sjö leikjum og sigur í fimmtánda sæti deildarinnar.

Emmanuel Adebayor tókst ekki að skora á móti sínum gömlu félögum en Tottenham hefur unnið alla fjóra deildarleiki sína með Tógmanninn innanborðs eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum án hans. Bakvörðurinn Kyle Walker skoraði sigurmarkið - sitt fyrsta mark fyrir félagið. Arsenal hefur ekki unnið Tottenham síðan í september 2007 og það breyttist ekki í dag.

Tottenham byrjaði leikinn vel og fékk tvö úrvalsfæri í upphafi leiks en besta færið átti þó Arsenal-maðurinn Gervinho sem skaut framhjá opnu marki eftir að hafa fengið flotta sendingu frá Robin van Persie.

Rafael van der Vaart kom Tottenham í 1-0 á 40. mínútu þegar hann lagði boltann fyrir sig, kannski með hendinni, og skoraði laglega eftir að hafa fengið sendingu frá Emmanuel Adebayor.

Tottenham byrjaði seinni hálfleikinn líka vel en það voru þó Arsenal-menn sem skoruðu. Aaron Ramsey jafnaði leikinn á 51. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Alex Song.

Bakvörðurinn Kyle Walker skoraði síðan sigurmark Tottenham á 72. mínútu þegar hann lét vaða af löngu færi. Wojciech Szczesny, hefði átt að gera betur en skotið var erfitt viðureignar. Szczesny átti mjög góðan leik en verður eflaust metinn af þessum mistökum.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×