Innlent

Slitastjórn í mál við fyrrum bankastjóra

Guðný Helga Herbertsson skrifar

Slitastjórn Landsbankans ætlar að krefjast fjögur hundruð milljóna króna af fyrrverandi bankastjórum bankans, Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, og millistjórnanda í bankanum, fyrir að hafa innleyst kaupréttasamninga nokkrum dögum fyrir hrun þrátt fyrir að þeir væru ekki innleysanlegir fyrr en um tveimur mánuðum síðar.

Í byrjun september verða þingfest þrjú mál slitastjórnarinnar á hendur fyrrverandi bankastjórunum Sigurjóni og Halldóri og millistjórnanda fyrirtækjasviðs vegna uppgjörs á kaupréttum og kaupaukum nokkrum dögum fyrir hrun. Slitastjórnin krefst endurgreiðslu, samtals að fjárhæð 400 milljónum króna.

„Við teljum ekki verið skilyrði til að greiða þessar greiðslur og standa að þessu uppgjöri fyrir hönd bankans. Við viljum að þessum greiðslum verði aftur skilað til bússins," segir Herdís Hallmarsdóttir í slitastjórn Landsbankans.

Kaupréttarsamningar þeirra Sigurjóns og Halldórs voru fyrst innleysanlegir 1. desember 2008 ef marka má rannsóknarskýrslu Alþingis. Samningarnir sem slitastjórnin vísar til í máli sínu voru þó innleystir stuttu fyrir hrun, eða um tveimur mánuðum áður en þeir voru innleysanlegir. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður Sigurjón krafinn um 200 milljónir en hinar tvöhundruð milljónirnar munu skiptast nokkuð jafnt á milli Halldórs og millistjórnandans.

Þá eru, líkt og fréttastofa greindi frá í gær, í lokaundirbúningi tvö skaðabótamál þar sem tjón bankans er talið nema tugum milljarða króna. Málin munu skýrast á næstu vikum.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×