Svíinn Zlatan Ibrahimovic getur ekki spilað með Barcelona á móti Arsenal í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar vegna meiðsla. Zlatan er einnig tæpur að ná El Clasico leiknum á móti Real Madrid um næstu helgi.
Zlatan Ibrahimovic fann fyrir óþægindum í kálfa í upphitun fyrir leikinn á móti Athletic Bilbao gærkvöldi og tók af þeim sökum ekkert þátt í leiknum. Þjálfarinn Pep Guardiola sagði eftir leikinn að sænski framherjinn hafi tognað á kálfavöðva.
Zlatan Ibrahimovic skoraði bæði mörk Barcelona í fyrri leiknum sem endaði með 2-2 jafntefli. Seinni leikur liðanna fer fram á Nývangi á þriðjudaginn.
Zlatan Ibrahimovic meiddur á kálfa - verður ekki með á móti Arsenal
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
