Innlent

Vatn á Þingvöllum ekki neysluhæft vegna seyruvökva

Hafsteinn Hauksson skrifar

Vatn á Þingvallasvæðinu er ekki neysluhæft eftir að seyruvökva úr rotþróm var dælt á vatnsverndarsvæði, en saurkólígerlar fundust í vatninu.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands tók sýnin á mánudag eftir að starfsmenn Holræsa og stífluþjónustu Suðurlands losuðu seyruvökva úr rotþróm á vatnsverndarsvæðinu á Þingvöllum. Talin var hætta á að seyran hefði síast í sama grunnvatnsgeymi og sumarhúsaeigendur á svæðinu sækja neysluvatn sitt í.

Eitt sýnið var tekið úr tjörnum sem myndast höfðu í móanum þar sem seyruvökvinn var losaður. Reyndist mikill fjöldi saurgerla í sýninu, sem bendir til að nokkuð magn seyruvökva hafi verið losað á svæðinu.

Að auki voru tvö sýni tekin úr neysluvatni, en hvorugt sýnið var drykkjarhæft. Í öðru sýninu fannst engin kólímengun, heldur var gerlafjöldinn yfir heilsumörkum. Í hinu voru hins vegar greinilegir saurkólígerlar.

Talsmenn heilbrigðiseftirlits Suðurlands geta ekki fullyrt um uppruna mengunarinnar með vissu, en útiloka síður en svo að hún stafi af losun seyruvökvans á svæðinu. Málið verður tekið til skoðunar, en nánari skýringa er að vænta frá eftirlitinu í næstu viku. Sýni voru einnig tekin í gær, en áfram verður fylgst með neysluvatni.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær ætla sumarhúsaeigendur ekki að súpa seyruna af athæfi fyrirtækisins þegjandi og hljóðalaust og hafa kært Stífluþjónustuna til lögreglu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×