Innlent

Meirihluti almennings vill að ráðherrar verði sóttir til saka

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún leiddu stjórnarflokkana þegar hrunið varð
Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún leiddu stjórnarflokkana þegar hrunið varð Mynd: GVA
Meirihluti almennings er fylgjandi því að sakamál verði höfðað á hendur þeim sem gegndu ráðherraembætti í bankahruninu. Áberandi munur er á viðhorfi til málshöfðunar eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Markaðs- og miðlarannsóknir ehf. gerði.

Yfir 60% svarenda sögðust fylgjandi því að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn fyrrverandi ráðherrunum Árna M. Matthiesen (66,3%), Geir H. Haarde (64,2%) og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (60,4%).

Nokkuð færri eða 51,8% sögðust fylgjandi því að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn Björgvin G. Sigurðssyni fyrrverandi viðskiptaráðherra.

Verulegur munur mældist á afstöðu svarenda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka. Þannig voru rétt um þriðjungur sjálfstæðismanna sem sögðust hlynntir málshöfðun gegn einhverjum ráðherranna.

Þá voru um 60% stuðningsmanna Samfylkingarinnar fylgjandi málshöfðun gegn Árna M. Matthiesen og Geir H. Haarde en undir 40% þeirra sögðust fylgjandi málshöfðun gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðssyni.

Meirihluti Vinstri-grænna og framsóknarmanna er fylgjandi málshöfðun

gegn öllum fyrrverandi ráðherrunum fjórum (á bilinu 63%-81% stuðningsmanna Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins sögðust hlynntir málshöfðun).

Þá voru 79% til 93% þeirra sem kváðust styðja aðra stjórnmálaflokka vera fylgjandi málshöfðun gegn ráðherrunum.

Sjá nánari niðurstöður hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×