Jose Mourinho og hans menn í Inter eru komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Liðið vann CSKA frá Moskvu fyrirhafnarlítið 1-0 í leik sem var að ljúka í Rússlandi.
Inter vann fyrri leikinn með sama mun á Ítalíu og kemst því áfram 2-0 samanlagt. Wesley Sneijder skoraði markið í þessum seinni leik strax á sjöttu mínútu og þá var brekkan brött fyrir heimamenn sem þurftu að skora þrjú mörk til að komast áfram.
Snemma í seinni hálfleik missti CSKA mann af velli með rautt spjald og þá var leik í raun lokið. Inter mætir sigurvegaranum úr viðureign Barcelona og Arsenal í undanúrslitunum.
Vísir var með beina lýsingu frá leiknum í Rússlandi og má lesa hana hér að neðan.
CSKA Moskva-Inter 0-1 (Samanlagt: 0-2)
0-1 Wesley Sneijder (6.)
90.mín: Leiknum er lokið. Inter kemst áfram í undanúrslitin. Nú þarf Mourinho bara að finna sér sportbar í Moskvu til að sjá hvort hans lið mætir Barcelona eða Arsenal.
75.mín: Þetta hefur verið fyrirhafnarlítið hjá Ítalíumeisturunum. CSKA Moskva veitir litla mótspyrnu og spennan engin.
58.mín: Jose Mourinho er að afreka það að verða fyrsti þjálfarinn sem leiðir þrjú mismunandi lið í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Louis van Gaal getur fetað í fótspor hans annað kvöld ef FC Bayern slær út Manchester United.
50.mín: Ef þetta var erfitt áður þá er þetta ómögulegt fyrir heimamenn núna. Chidi Odiah fékk rautt spjald hér í upphafi seinni hálfleiks, fékk sitt annað gula spjald og ætti að vera að skrúfa frá sturtunni núna. Hárrétt hjá franska dómaranum og Moskvumenn því tíu gegn ellefu.
45.mín: Kominn er hálfleikur í Moskvu. Ekkert sem bendir til þess að heimamenn séu að fara að skora þrjú mörk í þessum leik. Þeir hafa mikið reynt langskot en minna verið í því að hitta á markið.
25.mín: Inter ræður ferðinni. Rússarnir þurfa þrjú mörk til að komast áfram. Ansi brött brekka fyrir þá og allt útlit fyrir að Inter verði fyrst liða í undanúrslitin. Þessu einvígi virðist einfaldlega vera lokið.
6.mín: MARK! Inter skorar fyrsta markið í Moskvu. Það gerði Sneijder beint úr aukaspyrnu. Skotið fór beint á markið en Akinfeev í marki heimamanna ekki á tánum, illa gert hjá honum. Ljóst er að þessi leikur fer ekki í framlengingu.
1.mín: Leikurinn er hafinn. Leikið er á Luznikhi-vellinum í Moskvu en sá völlur er með gervigrasi sem er ekki vinsælt hjá ítalska liðinu. Dómari er Stephane Lannoy frá Frakklandi.
Byrjunarlið CSKA: Akinfeev, Semberas, Ignashevich, Berezutsky, Berezutsky, Shchennikov, Dzagoev, Mamaev, Gonzalez, Honda, Necid.
(Varamenn: Zhemchugov, Nababkin, Odiah, Piliev, Rahimic, Oliseh, Guilherme)
Byrjunarlið Inter: Julio Cesar, Zanetti, Lucio, Maicon, Samuel, Stankovic, Sneijder, Cambiasso, Eto'o, Milito, Pandev.
(Varamenn: Orlandoni, Cordoba, Materazzi, Chivu, Quaresma, Muntari, Balotelli)