Erlent

Hnattræn hlýnun: Lomborg breytir um stefnu

Björn Lomborg.
Björn Lomborg. MYND/Emil Jupin

Einn helsti gagnrýnandi þeirra sem telja jörðinni stafa hætta af hlýnun af manna völdum virðist hafa skipt um skoðun. Danski prófessorinn Björn Lomborg hefur farið fremstur í flokki á meðal þeirra sem hafa gefið lítið fyrir hættuna af hlýnun jarðar og áhrifa manna á þá þróun. Hann hefur nú skrifað bók sem kemur út á næstunni en í henni segir hann að hnattræn hlýnun sé án efa ein af helstu hættum sem steðji að mannkyninu.

Lomborg hefur hingað til verið óhræddur við að gagnrýna andstæðinga sína í þessum málum og oft hefur hann reitt þá til reiði. Frægt varð þegar yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum líkti honum við Adolf Hitler.

Í nýju bókinni leggur Lomborg hinsvegar til að 100 milljörðum dollara verði á hverju ári varið til þess að taka á loftslagsvandanum, gangi það eftir, segir Lomborg, ætti að vera hægt að vinna bug á vandamálinu fyrir næstu aldamót. Viðsnúningur Lomborgs ætti að kæta þá sem hingað til hafa talað hæst um hlýnun jarðar og áhrif manna í því sambandi því síðustu misseri hefur hvert málið rekið annað þar sem vísindamenn virðast hafa hagrætt rannsóknargögnum sér í hag.

Lomborg þvertekur reyndar fyrir að um viðsnúning sé að ræða. Í viðtali við breska blaðið The Guardian segist hann ávallt hafa haldið því fram að hlýnun af manna völdum væri vandamál. Það væri hins vegar ekki að steypa heiminum í glötun, vandamálið megi vel leysa með réttum aðgerðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×