Erlent

WikiLeaks stofnandi handtekinn í Bretlandi

Óli Tynes skrifar
Julian Assange.
Julian Assange.

Breska lögreglan hefur handtekið Julian Assange stofnanda WikiLeaks að sögn Sky fréttastofunnar og BBC. Það var gert að beiðni sænskra yfirvalda. Þar í landi er hann ákærður fyrir nauðgun og kynferðislegt ofbeldi gegn tveim konum þegar hann var í heimsókn í Svíþjóð í ágúst síðastliðnum. WikiLeaks vefsíðan var vistuð í Svíþjóð en hefur nú verið lokað þar.

Lögfræðingur Assanges segir að hann muni berjast gegn því að vera framseldur til Svíþjóðar, aðallega á þeim forsendum að þaðan verði hann sendur áfram til Bandaríkjanna. Hann er annars Ástralskur ríkisborgari. Bandaríkjamenn eru æfir út í Ástralann fyrir þær upplýsingar sem hann hefur sett á vefsíðu sína.

Svo mikil er reiðin að jafnvel þekktir stjórnmálamenn hafa hvatt til þess að hann verði ráðinn af dögum. Assange verður leiddur fyrir dómara síðar í dag þar sem framsalsmál hans verður tekið fyrir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×