Innlent

Kirkjan samþykkir ekki niðurskurðarkröfur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kirkjuþing eru haldin reglulega.
Kirkjuþing eru haldin reglulega.
Kirkjuþing samþykkir ekki 9% niðurskurðarkröfu sem ríkisstjórnin gerir til þjóðkirkjunnar en samþykkir 5% niðurskurð með skilyrðum.

Í ályktun sem samþykkt var á aukakirkjuþingi í dag segir að Þjóðkirkjan sé sjálfstæður lögaðili og grundvelli fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju verði ekki raskað nema með gagnkvæmum samningum sem bæði kirkjuþing og Alþingi samþykki. Kirkjuþingið krefst þess að samningsbundið og lögfest endurgjald ríkisins til þjóðkirkjunnar samkvæmt samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar, frá 4. september 1998, skerðist ekki meira en um 5% árið 2011 miðað við greiðslur úr ríkissjóði árið 2010.

„Samþykki þjóðkirkjunnar á ofangreindri 5% skerðingu verði háð því að fjárhæð sóknargjalda árið 2011 breytist ekki frá árinu 2010 og verði 767 krónur á mánuði á hvern gjaldanda 16 ára og eldri, enda eru þau félagsgjöld í eðli sínu sem standa undir grunnþjónustu safnaðanna sem er mikilvægur þáttur í velferð samfélagsins. Samkomulag um niðurskurð fjárframlaga til þjóðkirkjunnar skal gert með fyrirvara um samþykki kirkjuþings og Alþingis og gildi einungis fyrir árið 2011," segir í ályktun Kirkjuþings.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.