Tal um fjárhagsaðstoð Rússa við Ísland í bankahruninu í októberbyrjun 2008 var tilefni vangaveltna í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi um hvort Bandaríkjastjórn þyrfti að hafa hér frekari hönd í bagga. Carol van Voorst, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, taldi ekki fullreynt af hálfu íslenskra stjórnvalda hvort hjálp væri í boði frá Bandaríkjunum.
Yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda 7. október 2008 um að landið sneri sér til Rússlands þar sem „vinaþjóðir" hafi brugðist hjálparbeiðnum urðu til þess að bandaríska sendiráðið kannaði eftir hvaða leiðum aðstoðar var óskað.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Carol van Voorst, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem skrifuð var 8. október 2008 og Fréttablaðið hefur undir höndum.
Spurst var fyrir um það bæði hjá íslenskum stjórnvöldum og í Bandaríkjunum hvort Íslendingar hafi farið fram á aðstoð eftir öðrum leiðum en í gegn um Seðlabanka Bandaríkjanna.
„Við höfum einungis getað staðfest að fulltrúar Seðlabanka Íslands hafa rætt við bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna — en ekki síðan í síðustu viku," segir í skýrslu sendiherrans.
„Við fáum með engu móti skýrt af hverju Íslendingarnir hafa ekki tekið upp símann til þess að ræða hvers þeir þarfnast og hvað við gætum aðstoðað með, þó staða Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra kunni að hafa eitthvað að gera með tregðu til að opna aðrar samskiptaleiðir.
Bandarískir bankamenn hér segja okkur að aðstoðar Bandaríkjanna sé sárlega þörf, að eignir íslensku bankanna séu ekki eitraðar, og að vandamál þeirra sé skammtímafjármögnun sem orðið hafi erfiðari vegna trúverðugleikabrests," segir Carol van Voorst.
Sendiherrann bendir á að Bandaríkin eigi hagsmuna að gæta á norðurhjara og öflugt samstarf á sviði öryggismála við Ísland, eftir brottför Bandaríkjahers frá Keflavík, sem bæði lönd hafi unnið hörðum höndum að því að viðhalda.
Hún greinir frá því að sama dag og skýrslan er rituð hafi sendiráðið hvatt háttsetta embættismenn á skrifstofu íslenska forsætisráðuneytisins til að kanna betur hvaða aðkomu Bandaríkin gætu haft að því að auka traust á Íslandi, aðra en gjaldeyrisskiptin sem Seðlabanki Bandaríkjanna hafði hafnað.
„Við efumst um að það yrði Bandaríkjunum, eða NATÓ, í hag að Íslendingar yrðu skuldbundnir Rússlandi, sama hversu „vinsamlegir" lánaskilmálar kynnu að vera," segir í upplýsingaskýrslu sendiherrans.
olikr@frettabladid.is