Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum á morgun klukkan 11. Óvissa hefur ríkt um hvað hvernig forsetinn mun bregðast við í Icesave málinu.
Fjórir sólarhringar eru liðnir síðan að Ólafur fékk lögin sem Alþingi samþykkti 30. desember í hendurnar. Þá sagðist hann ætla að taka sér frest til þess að fara yfir málið. Í fyrradag tók Ólafur á móti undirskriftum Indefence hópsins þar sem skorað er á hann að synja lögunum staðfestingar.
Líkt og kom fram á Vísi fyrr í dag fundaði forsetinn í gær með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í sitt hvoru lagi vegna Icesave laganna. Ekkert hefur verið gefið upp um hvað forsetanum og ráðherrunum fór á milli en telja má víst að þar hafi flokksleiðtogar stjórnarflokkanna m.a. gert forseta grein fyrir hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við, synji forseti því að staðfesta lögin.