Verið er að rannsaka uppruna upplýsinga um lántakendur Kaupþings sem birtust á heimasíðunni WikiLeak fyrir sólarhring, að því er fram kemur í yfirlýsingu bankans.
Fjármáleftirlitinu hefur verið gert viðvart um málið og farið fram á að upplýsingarnar verði fjarlægðar af heimasíðunni.
RÚV flutti fréttir af málinu í kvöld.
Í tilkynningunni kemur fram að upplýsingarnar séu trúnaðarmál og birting þeirra sé í andstöðu við ákvæði um þagnarskyldu í lögum um fjármálafyrirtæki.
Bankinn telji ekki að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi erindi við almenning og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum.
„Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og
viðskiptavina. Með birtingu slíkra upplýsinga er því sambandi ógnað," segir í yfirlýsingunni.
Hana má lesa í heild hér að neðan.