Jose Mourinho, þjálfari Inter, er ekki hættur að skammast út í fjölmiðla þó svo hann segi að skrif þeirra bíti ekki á sig.
Portúgalinn hefur nánast verið í stanslausu stríði við fjölmiðla á Ítalíu síðan hann lenti í tískuborginni.
Þó svo hann hafi unnið deildina með Inter í fyrra og að félagið hafi átta stiga forskot í deildinni núna fær hann samt að heyra það frá fjölmiðlum.
„Ég hef gefið ítalskri knattspyrnu sama og ekki neitt miðað við það sem stendur í blöðunum hérna. Það er allt í lagi því ég kom hingað eingöngu til þess að vinna titla," sagði Mourinho ákveðinn.
„Þess vegna er mér líka alveg sama um ykkar álit. Einu mennirnir sem ég hlusta á er forseti Inter og leikmenn félagsins. Það má samt benda á að ég vann titilinn í fyrra og ég veit ekki marga þjálfara sem geta sagt að þeir hafi orðið meistarar í þremur löndum."