Erlent

Löggur lemja löggur

Óli Tynes skrifar
Það eru engin vettlingatök hjá dönsku lögreglunni.
Það eru engin vettlingatök hjá dönsku lögreglunni.

Búist er við að mikill mannfjöldi steðji til Danmerkur þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin þar í desember.

Það verða ekki aðeins ráðstefnugestir heldur einnig ýmsir hópar mótmælenda úr öllum heimshornum. Oftar en ekki kemur til óeirða á svona stórfundum og danska lögreglan er þegar byrjuð að búa sig undir slaginn.

Þar eru menn á látlausum æfingum sem eru svo raunverulegar að flytja hefur þurft marga lögregluþjóna á sjúkrahús.

Lögreglumönnum er skipt í tvo hópa. Annar hópurinn og sjá fjölmennari leikur mótmælendur og í hinum hópnum eru svo löggur sem leika sjálfa sig.

Meðal þeirra sem þurfti að flytja á sjúkrahús var lögreglukona sem var slegin í bakið með kylfu þegar hún neitaði að hlýða skipun um að setjast í götuna.

Viðbrögð þjálfunarstjórans voru blendin. -Það á náttúrlega ekki að hrósa lögreglumönnum fyrir að slá með kylfu, en höggið var flott. Þetta var alveg eftir kúnstarinnar reglum. Þvert yfir hrygginn.

Í öðru tilfelli var lögreglumanni skipað að beita kylfunni. Hann var svo ákafur að þegar hann reiddi bareflið til höggs lenti það á enni næsta lögreglumanns fyrir aftan hann. Hann steinlá.

Það er harkan sex, hjá dönsku lögreglunni.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×