Erlent

Upptökur af Baghdad-sprengingum birtar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sprengingarnar ollu gríðarlegu tjóni, felldu 155 manns og særðu á sjötta hundrað.
Sprengingarnar ollu gríðarlegu tjóni, felldu 155 manns og særðu á sjötta hundrað. MYND/Worldnews

Yfirvöld í Írak hafa birt myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum sem sýna sprengingarnar er urðu 155 manns að bana í miðborg Baghdad á sunnudaginn.

Myndbandsupptökurnar eru sláandi svo ekki sé meira sagt og má berja þær augum á vefsíðu CNN. Annað myndbandið sýnir fjölda fólksbíla og rútu aka kringum stórt hringtorg í miðbænum og skyndilega verður sprenging sem nær jafnvel að hrista öryggismyndavélina duglega til og er hún þó í töluverðri fjarlægð. Hitt myndskeiðið sýnir bíla og götur sem þakin eru braki frá seinni sprengingunni auk þess sem eldar loga í nágrenninu.

Borgarstjóri Baghdad sýndi myndbandsupptökurnar á blaðamannafundi sem haldinn var í rústum einnar þeirra bygginga sem urðu hvað verst úti í tilræðinu. Þá greindi hann frá því að borgarstjórn Íraks hefði greitt atkvæði með því að innanríkisráðherra landsins og stjórnandi öryggissveita Baghdad létu af störfum en þeir bera mesta ábyrgð á öryggismálum í borginni. Eins og fréttastofan greindi frá í gær hefur öfgahópur sem kallar sig Hið íslamska ríki Íraks lýst ódæðinu á hendur sér en hann á í nánu samstarfi við al-Qaeda-hryðjuverkasamtökin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×