Erlent

Íranar vilja breytingar á samningnum

Fulltrúar frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni hófu að rannsaka kjarnorkuverið Fordo í Íran á sunnudaginn var. Mikil leynd hefur hvílt yfir kjarnorkuverinu en það er falið inni í fjalli. Íranar hafa alla tíð haldið því fram að kjarnorkuframleiðsla þeirra sé einungis í friðsamlegum tilgangi. nordicphotos/afp
Fulltrúar frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni hófu að rannsaka kjarnorkuverið Fordo í Íran á sunnudaginn var. Mikil leynd hefur hvílt yfir kjarnorkuverinu en það er falið inni í fjalli. Íranar hafa alla tíð haldið því fram að kjarnorkuframleiðsla þeirra sé einungis í friðsamlegum tilgangi. nordicphotos/afp

Íranar eru reiðubúnir að ganga til samninga við Sameinuðu þjóðirnar um kjarnorkueftirlit, en þó aðeins ef veigamiklar breytingar verða gerðar á þeim samningi sem nú liggur fyrir. Þetta hefur íraska fréttastofa Al Alam-sjónvarpsins eftir heimildarmönnum sínum og segir að stjórnvöld í Íran muni gefa Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni svar innan tveggja sólar­hringa.

Samkvæmt samningsdrögunum munu Íranar senda auðgað úran til Rússlands og Frakklands þar sem efninu verður breytt í kjarnorkueldsneyti. Íranar áttu að svara á föstudaginn var.

Manoucheher Mottaki, utanríkis­ráðherra Írans, sagði á mánudag að stjórnvöld þar í landi væru að íhuga að verða sér úti um auðgað úran í öðrum löndum.

Vesturveldin telja sig vera að koma til móts við Írana með því að gefa þeim möguleika á að fá það kjarnorkueldsneyti sem þeir þurfa en um leið verði tryggt að Íranar noti ekki auðgað úran í kjarnavopn.

Bernand Kouchner, utanríkismálaráðherra Frakklands, sagði að Írönum hefði verið sýnd mikil þolinmæði og sakaði írönsk stjórnvöld um tímaeyðslu.

Samkvæmt heimildum bresku fréttastofunnar BBC gætir vaxandi andstöðu við samninginn hjá Írönum og er óttast að ef samningurinn verði ekki samþykktur muni það setja frekari samningaviðræður í uppnám. - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×