Erlent

Átök hvalveiðimanna og liðsmanna Sea Shepherd

Hvalverndarsinnar hafa reynt hvað þeir geta til að trufla veiðarnar. Í gær hentu þeir þránuðu smjöri í hvalveiðiskip og veiðimenn og skvettu málningu á þá.
Hvalverndarsinnar hafa reynt hvað þeir geta til að trufla veiðarnar. Í gær hentu þeir þránuðu smjöri í hvalveiðiskip og veiðimenn og skvettu málningu á þá. MYND/AP
Hvalverndarsinnar segja japanska hvalveiðimenn hafa slasað tvo úr þeirra hópi með járnplötum og golfkúlum þegar sló í brýnu milli milli þeirra í Suðuríshafi í gær. Hvalverndarsinnar voru þá að trufla veiðar. Japönsku hvalveiðimennirnir neita sök og segjast bara hafa sprautað vatni á þá.

Japönsk hvalveiðiskip eru nú við veiðar í Suðuríshafi. Áformað er að veiða níuhundruð þrjátíu og fimm hrefnur og fimmtíu langreyðar. Hvalverndarsinnar úr Sea Shepherd samtökum Pauls Watsons hafa reynt hvað þeir geta til að trufla veiðarnar. Í gær hentu þeir þránuðu smjöri í hvalveiðiskip og veiðimenn og skvettu málningu á þá. Veiðimennirnir munu að sögn hvalverndarsinna hafa svarað með því að sprauta vatni á mótmælendur en einnig hafi þeir kastað í þá golfkúlum og járnplötum. Tveir hvalverndarsinnar munu hafa meiðst í átökunum. Japönsku veiðimennirnir segjast aðeins hafa sprauta vatni á mótmælendur.

Átökin blossuðu upp þar sem hvalverndarsinnarnir sigldu á tveimur slöngubátum að hvalveiðiskipunum meðan sumir sátu í þyrlu sem flogið var að skipunum. Vont var í sjóinn á þeim tíma þar sem þeir voru rúmlega þrjú þúsund kílómetrum suð austur af Tasmaníu.

Japönsk yfirvöld hafa kvartað til ráðamanna í Ástralíu og Nýja Sjálandi vegna aðgerða Sea Shepherd og biðja um aðstoð landhelgisgæslunnar þar. Japanir hafa einnig kvartað til Hollendinga þar sem skip Sea Shepherd Steve Irwin er skráð.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×