Erlent

Chavez sakar Kólumbíumenn um njósnir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hugo Chavez.
Hugo Chavez.

Stjórnvöld í Venesúela ásaka nágranna sína í Kólumbíu um njósnir auk þess að leyfa Bandaríkjamönnum að koma upp herstöðvum sem nota megi til að gera árás á Venesúela.

Hugo Chavez, forseti Venesúela, er allt annað en ánægður með nágranna sína um þessar mundir en hann heldur því fram að leyniþjónusta Kólumbíu stundi njósnir í Venesúela. Hann lætur þó ekkert uppi um hvernig meintar njósnir fari fram né hvaða upplýsingum Kólumbíumenn sækist eftir en málið er talið tengjast morði á heilu knattspyrnuliði frá Kólumbíu sem var á ferð í Venesúela.

Það er ekkert nýtt að Venesúela- og Kólumbíumenn eldi saman grátt silfur, skæruhernaður í Kólumbíu og kókaínflutningar þaðan hafa oft orðið undirrót illdeilna auk þess sem Chavez er æfur yfir því að Kólumbíumenn leyfi Bandaríkjamönnum að koma upp herstöðvum í landinu en þær telur hann eingöngu munu nýtast til að gera árás á Venesúela.

Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, vísar ásökunum nágranna síns hins vegar alfarið á bug og segir veru Bandaríkjahers í landinu eingöngu tengjast samstarfi ríkjanna við að draga úr kókaínframleiðslu og streymi kókaíns frá Kólumbíu inn á bandarískan fíkniefnamarkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×