Erlent

Leki skekur loftslagsráðstefnuna

Lars Lökke, forsætisráðherra Danmekur, setti loftslagsráðstefnuna í gær. Mynd/AP
Lars Lökke, forsætisráðherra Danmekur, setti loftslagsráðstefnuna í gær. Mynd/AP

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn er í uppnámi eftir að drögum að samkomulagi um samdrátt í losun koltvísýrings var lekið til breska blaðsins The Guardian í gær. Fulltrúar þróunarríkja brugðust ævareiðir við því sem fram kom í drögunum, sem kölluð hafa verið „Danski textinn".

Í drögunum er gert ráð fyrir að heimsins ríkustu þjóðir fái aukin völd þegar kemur að stefnumótun í loftslagsmálum og að dregið verði úr völdum Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur verði ríkari þjóðum heimsins heimilað að losa mun meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið miðað við höfðatölu en fátækum ríkjum árið 2050, eða 2,67 tonnum á móti 1,44.

Drögin leynilegu voru smíðuð af félagsskap sem kallaður er „Skuldbindingarklíkan" (e. The circle of commitment), og er sagður innihalda fulltrúa Bretlands, Bandaríkjanna og Danmerkur, auk annarra. Þau höfðu einungis verið kynnt fulltrúum örfárra þjóða síðan lokið var við þau í vikunni.

Talið er að þeir sem stóðu að drögunum hafi ætlað að reyna að afla þeim fylgis næstu daga, og reyna síðan að ná sínu fram þegar leiðtogar stærstu ríkjanna mæta til leiks eftir helgi.- sh





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×